Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins er sjóður sem úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna. Sjóðurinn hefur eigin stjórn, en Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum.

Árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem var stofnaður árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar.

Vaxtatekjurnar eru notaðar til að kaupa trjáplöntur fyrir grunnskólana sem nemendur gróðursetja. Auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn snemma á hverju ári. Allir grunnskólar landsins geta sótt um tré í sjóðinn, bæði til gróðursetningar að vori til og á haustin.

Stjórn Yrkjusjóðs:

Andri Snær Magnason, stjórnarformaður
Helena Óladóttir, fulltrúi menntamálaráðuneytis
Páll Ingþór Kristinsson, fulltrúi Skógræktarfélags Íslands
Helga Eyja Hrafnkelsdóttir, fulltrúi Kennarasambands Íslands
Helena Marta Stefánsdóttir, fulltrúi Lands og skógar
Þorbjörg Sæmundsdóttir, fulltrúi íslenskrar æsku

Með daglega umsjón Yrkjusjóðs fer Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands, rf@skog.is.

Vigdís Finnbogadóttir

Fjórði forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, er fædd 15. apríl 1930.

Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands frá 1980 til 1996. Hún er fyrsta konan í heiminum sem kosin var í almennum kosningum sem forseti og er sú kona sem lengst hefur setið á forsetastóli. Vigdís var alla sína forsetatíð og síðar ötull talsmaður skógræktar,  landgræðslu og náttúruverndar. Þegar Vigdís var forseti og heimsótti þorp og bæi hafði hún fyrir sið að gróðursetja þrjú tré með börnum og unglingum – eitt fyrir strák, eitt fyrir stelpu og eitt fyrir ófæddu börnin. Vigdís var verndari Landgræðsluskógaátaksins árið 1990 en þá var hrundið af stað fjársöfnun á landsvísu til uppgræðslu á illa eða lítið grónu landi. Í tilefni átaksins var einnig stofnað til Vinaskógar á Þingvöllum að ósk Vigdísar, en þar kom hún með erlenda þjóðhöfðingja og gróðursetti tré í nafni vináttu og friðar. Var Elísabet II Bretadrottning fyrst þjóðhöfðingja til að setja niður tré þar. Vigdís ákvað einnig að hagnaður af sölu bókarinnar Yrkja, sem gefin var út í tilefni 60 ára afmælis hennar árið 1990, skyldi settur í sjóð sem útvegaði trjáplöntur fyrir skólabörn að planta og fékk sjóðurinn nafnið Yrkjusjóður.

Nánar má fræðast um störf Vigdísar á http://vigdis.is/is/forsida/

„Þeim fjölgar stöðugt sem gera sér ljóst að landið, sem við tókum í arf, á kröfu til að við ræktum það og varðveitum, færum því aftur þann gróður sem það hefur misst og beitum til þess allri þekkingu og öllu því hugviti sem við eigum. Þannig gjöldum við landskuld okkar við alnar og óbornar kynslóðir. Vel kann það að vera dómur okkar að liðnar kynslóðir hafi stundum gengið nær landinu en hollast hefði verið en við hljótum líka að geta skilið að þær áttu ekki annarra kosta völ. Þá afsökun eigum við ekki og arftakar okkar munu ekki fyrirgefa okkur á þeim forsendum. Því við eigum að vita hvað við erum að gera, þekkja bæði land okkar og fiskimið, kosti þeirra og þol.“

Vigdís Finnbogadóttir í opinberri heimsókn um Vestfirði 21. – 26. júní 1983. Vigdís gróðursetur þrjú birkitré sem tákn fyrir uppvaxandi drengi, uppvaxandi stúlkur og fyrir ófæddar kynslóðir. Ljósmynd: Gunnar V. Andrésson