Skógar eru kallaðir lungu jarðarinnar af því að þeir eru mikilvægir fyrir loftið sem við öndum að okkur.

Ein leið til að draga úr magni koltvísýrings í andrúmsloftinu er að auka gróður, þá sérstaklega tré, því þau taka til sín mikið af koltvísýringi og binda í bæði viði og jarðvegi. Nú er um þriðjungur koltvísýrings sem losaður er árlega við bruna jarðefnaeldsneytis tekinn upp af skógum jarðar. Meiri skógur – bæði með verndun núverandi skóga og aukningu skóga með gróðursetningu – er því góð leið til að draga úr styrk koltvísýrings í andrúmslofti.

Skógar hreinsa loftið með því að taka til sín koltvísýring úr andrúmsloftinu og gefa frá sér súrefni, sem fólk og dýr anda að sér. Koltvísýringur í andrúmslofti hefur aukist verulega frá upphafi iðnvæðingar vegna bruna kola, olíu og gass og eyðingar skóga og jarðvegsrofs. Hefur þetta leitt til loftslagsbreytinga, en jörðin hefur hlýnað um 1°C að meðaltali á síðustu öld og þótt það virki kannski ekki mikið hefur það mikil áhrif á líf á jörðinni. Mögulegar afleiðingar þess geta verið meiri sveiflur í veðurfari – meiri þurrkar, sem auka líkur á gróðureldum og meiri rigning, sem getur leitt til meiri flóða. Það getur líka haft áhrif á ræktun matvæla og búsetuskilyrði fyrir okkur mannfólkið. Aukin bráðnun jökla og íss á Suður-og Norðurheimskauti hækkar yfirborð sjávar, svo svæði sem nú eru við strönd, meðal annars margar borgir, fara á kaf í sjó. Margar dýrategundir geta átt erfitt með að aðlagast að breyttum aðstæðum, sérstaklega tegundir sem nú lifa á heimskautasvæðum, t.d. ísbirnir.