Skógar gegna mikilvægu hlutverki hér á jörðinni. Þeir binda koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, halda jarðveginum föstum og geyma mikið vatn. Þeir eru heimkynni margra dýra- og plöntutegunda, en regnskógar hitabeltisins eru tegundaauðugust staðir jarðarinnar. Þar finnast tugþúsundir lífverutegunda og eru enn að finnast þar nýjar plöntu- og dýrategundir. Fólk hefur nýtt skóga þúsundir ára og gera enn, en stór hluti fólks á jörðinni notar timbur sem eldivið til upphitunar og matargerðar. Timbur er notað í húsgögn og byggingar, í pappír og ýmsa smáhluti. Skógar eru uppspretta matar (t.d. sveppa og ávaxta) og mörg lyf eru búin til úr jurtum sem vaxa í skógum.

Skógar heimsins

Skógar heimsins eru misjafnir eftir því hvar þeir eru á jörðinni af því að aðstæður á jörðinni eru svo misjafnar. Sums staðar er þurrt en annars staðar rignir mikið. Sums staðar er mjög heitt en annars staðar kalt. Sums staðar er mikill veðurmunur á milli árstíða en annars staðar nær enginn. Hinar ýmsu trjátegundir hafa lagað sig að þessum mismunandi aðstæðum og mynda, ásamt öðrum gróðri, hinar fjölbreytilegustu gerðir skóga. Gróflega má flokka skóga í þrjú megin gróðurbelti – barrskógabelti, laufskógabelti og regnskóga. Barrtré er einkennandi fyrir barrskógabeltið, sem þekur stóran hluta norðurhvels jarðar. Barrskógabeltið hefur stutt, vot og svöl sumur og langa, kalda og þurra vetur. Jarðvegur er næringarlítill og því eru plöntur í barrskógunum harðgerðar. Algengasti gróðurinn er ýmis kuldaþolin barrtré, eins og fura, þinur, greni og lerki. Laufskógar eru einkennandi fyrir laufskógabeltið, en það einkennist af mildum, stuttum vetrum og hlýjum sumrum. Jarðvegurinn er þykkari og frjósamari en í barrskógunum og gróðurinn því fjölbreyttari. Einkennandi tré eru til dæmis hlynur, álmur, eik, beyki, hnota og ösp. Regnskógar eru fjölbreyttasta gróðurbelti jarðar. Þeir mynda belti um miðbaug og eru að mestu leyti í hitabeltinu. Þar rignir mjög mikið og jafn og hlýr hiti er árið um kring og plöntur vaxa því allt árið. Jarðvegur í regnskógunum er þunnur og næringarsnauður, en aðal næringin liggur í gróðrinum sjálfum. Regnskógar einkennast af fjölskrúðugu gróður- og dýralífi en þar eru heimkynni um helmings allra jurta og dýra í heiminum. Þar finnast nær allar gerðir af gróðri – tré, runnar, blóm, sveppir, grös og aðrar jurtir og trén eru yfirleitt hávaxin og græn allt árið.

Skógar á Íslandi

Upprunalegir skógar á Íslandi voru birkiskógar en eftir að farið var að gróðursetja tré hefur tegundunum fjölgað. Eru ýmis barrtré nú uppistaðan í mörgum skógum sem ræktaðir hafa verið upp, en einnig eru birkiskógar að dreifa úr sér og stækka. Skógarnir hér á landi eru ekki stórir samanborið við skóga víða í öðrum löndum, en eru nýttir á ýmsa vegu. Þeir eru til dæmis mjög vinsælir til útivistar, enda veita þeir gott skjól í vindasömu landi. Einnig er farið að nýta timbur úr íslenskum skógum í ýmislegt.

Skógareyðing

Stór hluti jarðar var eitt sinn þakinn skógi. Það sama gildir um Ísland. Þegar landnámsmenn settust hér að er talið að um 25-40% af landinu hafi verið vaxið skógi. Skógareyðing hófst skömmu síðar því skógurinn var höggvinn til eldiviðar, til bygginga og til að búa til svæði fyrir tún og beit húsdýra. Beit búfjár, sérstaklega vetrarbeit sauðkinda, hindraði svo endurnýjun skóganna. Við upphaf 20. aldar, þegar skipuleg skógrækt hefst, þöktu skógar ekki nema tæplega 1% landsins.