Stærstu og elstu lífverur jarðar eru tré. Fjöldi trjáplantna í heiminum er nokkuð á reiki, enda eru menn ekki alltaf sammála um hvað nákvæmlega er tré. Algengasta mat er á bilinu 80 –100 þúsund tegundir. Stærstur hluti þeirra er í regnskógunum en ekki er vitað með vissu hversu margar tegundir eru þar. Tveir stærstu hópar trjáplantna eru barrtré og lauftré. Til barrtrjáa teljast um 650 tegundir, en tegundir lauftrjáa skipta tugþúsundum og eru flestar þeirra í regnskógunum.

Barrtré og lauftré

Barrtré hafa löng og mjó, nálarlaga eða hreisturlaga laufblöð sem eru kölluð barr. Barrið er í raun upprúlluð laufblöð. Flest barrtré vaxa meira upp en til hliðar og eru því oft eins og keila í laginu. Barrtré þurfa ekki eins mikið vatn og lauftré og geta því vaxið þar sem lauftré þrífast ekki. Sumt barr hefur vaxkennda húð á yfirborðinu sem verndar það. Barr inniheldur líka ýmis efni sem virka eins og frostlögur. Barr þolir því vel kulda og flest barrtré halda því barrinu á veturna. Trén eru þess vegna græn á litinn allan ársins hring. Lauftré hafa flöt og breið lauf. Flest lauftré vaxa bæði upp og til hliðar og þess vegna er króna þeirra oft kúlulaga. Laufin eru breið til að sólin geti skinið vel á þau. Flest lauftré utan regnskóganna fella laufið á haustin. Blöðin byrja á að tapa græna litnum og verða gul, rauð, appelsínugul eða brún á litinn og falla svo af og trén leggjast í vetrardvala. Trén eru því lauflaus á veturna. Flest lauftré blómstra á vorin en hjá mörgum þeirra eru blómin mjög lítil. Sum lauftré hafa þyrpingu örsmárra blóma sem kallast rekill. Mörg lauftré mynda ávexti á haustin.

Gerð trjáa

Trjám má skipta gróflega í krónu, stofn og rætur. Króna er mynduð af laufum eða barri, sem er laufblöð barrtrjáa (í raun upprúlluð laufblöð). Hlutverk laufblaða er að beisla orku sólarinnar og búa til næringu fyrir plöntuna. Slíkt nefnist ljóstillífun. Í ljóstillífun beislar blaðgrænan, sem er litarefni í grænukornum plöntufruma, orku sólarinnar. Vatn + koltvísýringur -> sykur + súrefni. Tré taka því til sín koltvísýring úr andrúmsloftinu og gefa frá sér súrefni. Stofninn er burðarvirki trésins. Hann skiptist í viðarvef, sem flytur vatn og steinefni frá rótum, æðvaxtarlag sem framleiðir viðarvef, sáldvefur sem flytur næringu frá laufblöðum og börk yst. Rótin tekur upp vatn og steinefni úr jarðvegi. Vatnið og steinefnin berast í gegnum fíngerð rótarhár og frá rótinni um plöntuna með svokölluðum viðaræðum.