Skógar eru mikilvægir fyrir lífið á jörðinni. Þeir eru líka fallegir og hægt að nýta þá á ýmsa vegu. Skóga á samt ekki að rækta alls staðar þar sem sum landsvæði eru ætluð undir annað og sums staðar er hreinlega bannað að rækta skóga, þar sem verið er að vernda tiltekin náttúrufyrirbæri.

Þau svæði sem á ekki að gróðursetja á eru:

Vernduð svæði. Sum svæði eru vernduð með lögum. Það getur verið vegna náttúrverndar og er þá verið að vernda náttúrufyrirbæri sem eru sérstök að einhverju leyti. Sum svæði, staðir eða ákveðin fyrirbæri eru vernduð vegna þess að þar eru sögulegar minjar, t.d. rústir gamalla húsa eða leifar fjárrétta. Vatnsból eru vernduð til þess að hindra að óhreinindi sem geta mengað vatnið komist í þau. Því má ekki vera með óþarfa umferð við þau og má ekki gróðursetja alveg við þau.

Svæði ætluð undir annað. Ekki á að gróðursetja á svæðum sem eru frátekin fyrir annað, til dæmis undir tún eða akur, eða undir vegi, byggingar eða önnur mannvirki. Ekki á að gróðursetja undir rafmagnslínu, þar sem trén geta vaxið upp í línurnar og skemmt þær.

Óraskað votlendi. Með votlendi er átt við leirur, mýrar, tjarnir og flóa. Votlendi eru mikilvæg búsvæði margra lífvera – fugla, smádýra og plantna – auk þess að vera forðabúr fyrir vatn. Tré taka til sín mikið vatn og geta því þurrkað land. Þess vegna á ekki að gróðursetja tré í votlendi.

Birkiskógar. Lítið er orðið eftir af náttúrulegum birkiskógum og því mikilvægt að vernda þá. Þess vegna á ekki að gróðursetja aðrar trjátegundir inn í náttúrulega birkiskóga.

Svæði með dýrum eða plöntum á válista. Válisti er listi yfir dýr og plöntur sem eru í útrýmingarhættu og því verndaðar. Ef um varpstað eða dvalarstað sjaldgæfra fugla er að ræða þarf að skoða fyrst hvaða áhrif skógrækt getur haft. Ef hún getur skaðað fuglana á ekki að gróðursetja tré þar.