Vatns- og jarðvegsvernd
Í trjám og öðrum gróðri er bundið mikið vatn. Vatnið er enn fremur á stöðugri hringrás. Gróðurinn tekur til sín vatn úr jarðvegi, síar óhreinindi og ýmis önnur efni úr vatninu og skilar svo hreinna vatni út í andrúmsloftið með uppgufun. Þegar rignir á gróðurlausa jörð getur vatnið losað um jarðveg og skolað honum út í ár og vötn. Slíkt gerist í mun minna mæli þegar rignir á skóg. Droparnir detta ekki eins fast á jörðina, þeir leka niður í gegnum laufið og greinarnar og lenda svo á skógarbotninum sem er þakinn gróðri og laufi. Tré hafa líka langar rætur sem binda jarðveginn og draga úr jarðvegsrofi. Skógar hjálpa líka til við miðlun vatns. Í flóðum taka þeir til sín meira af vatninu en gerist á gróðurlitlu landi og draga þannig úr umfangi flóða. Á veturna safnast snjór í þeim, sem bráðnar hægar og jafnar á vorin heldur en í gróðurlitlu landi og dregur því úr líkum á vorflóðum.