Afurðir skóga
Fólk nýtir tré og annan gróður í skógum á marga vegu. Úr trjám kemur timbur sem nýtt er í hús, húsgögn og ýmislegt handverk og smámuni. Pappír og pappi er líka unninn úr trjám. Úr efnum í viði má vinna ýmis efni, meðal annars fataefni, lífeldsneyti og plast. Úr viði má líka vinna efni fyrir snyrtivörur. Ótal matvæli koma af trjám og úr skógum – hnetur, margvíslegir ávextir, sveppir, ýmsar kryddjurtir, eins og kanill, og meira að segja kakóbaunirnar sem súkkulaði er búið til úr. Mörg lyf eru líka búin til úr jurtum sem koma úr skógum og eru jurtir reyndar víða um heim notaðar beint til lækninga. Könglar, hnetur, ber, greinar, laufblöð og margt fleira eru notuð til skreytingar. Ekki má heldur gleyma jólatrjánum!