Hvernig er gróðursett?
Ekki á að gróðursetja tré of þétt saman, því þau þurfa að hafa pláss til að stækka. Hæfilegt er að hafa 2-3 m milli trjáa. Einhver algengustu mistök í gróðursetningu eru að setja plöntur of grunnt niður. Plantan á að vera gróðursett þannig að efsti hluti rótar sé vel undir yfirborði jarðvegs og hún sé vel föst í jörðinni. Ef land er vel gróið þarf að fjarlægja gróðurinn (gras, mosi, sina) næst holunni og kallast það flekking. Ef um gróðurlítið land er að ræða er æskilegt að nota áburð.
Staðarval
Fyrstu árin eru trjánum venjulega erfið, sérstaklega þar sem vaxtarskilyrði eru verri og þess vegna er mikilvægt að velja þeim góðan stað. Í móum og þýfðu landi er gott að setja trén í skjól fyrir erfiðustu vindátt og setja þau neðanvert í þúfu, en alls ekki ofan á þúfu. Steinar geta líka skýlt trjám. Ef mikill gróður er í móanum er gott að reyta hann burtu á smá belti kringum holuna sem tréð er sett í.
Oftast þarf að setja áburði með í móa, þar sem jarðvegur er ekki mjög frjósamur. Forðast skal að planta beint í gróðursnauða mela eða flög, þar sem er mikil hætta á frostlyftingu en þó má setja tré niður nálægt gróðri, eins og við jaðar flags eða mels. Oftast þarf að setja áburð með trénu líka. Gras vex oftast þar sem jarðvegur er frekar þykkur og góður fyrir plöntur og graslendi er því almennt hentugt til gróðursetningar trjáa. Gras getur hins vegar tafið vöxt lítilla trjáplantna, því þær ná ekki upp úr grasinu. Þess vegna er gott að reyta grasið frá kringum holuna sem tréð er sett í eða að setja trén niður þar sem grasið er aðeins gisnara.
Stunguskófla notuð
Best er að nota skófluna til að losa vel um jarðveginn. Byrjað er á stinga hæfilega stóra holu. Fyrir litla bakkaplöntu er hæfilega stór hola á stærð við skóflublaðið. Jarðvegstorfan úr holunni er sett varlega upp á kantinn og sneidd þannig að þunn gróðurtorfa (þaka) sé eftir. Losað er um jarðveginn með því að pjakka í hann í holunni. Plantan er tekin og komið fyrir í miðju holunnar og látin standa lóðrétt. Moldinni er jafnað að rótunum og þjappað varlega að stofninum svo að holan fyllist. Ágætt getur verið að snúa gróðurtorfunni (þökunni) við, búta hana niður og leggja bútana að stofninum.
Plöntustafur notaður
Hakinn á plöntustaf nýtist til þess að rífa upp gróðurtorfu (ef þarf) og hólkinum er stungið í jarðveginn, þannig að hann sé allur ofan í. Þegar hólkinum er lyft upp er komin passlega stór hola sem plöntunni er stungið í. Stigið er varlega meðfram plöntunni til að loka holunni alveg og koma rótum plöntunnar í gott samband við jarðveginn.
Geispa notuð
Geispa er hólkur með „gogg“ neðst. Gogginum er stungið í jörðina, þannig að hann sé allur ofan í. Stigið er á stóra fótstigið neðst og opnast þá goggurinn og býr til passlega stóra holu fyrir plöntuna. Plöntunni er svo rennt í gegnum hólkinn og fer þá ofan í holuna. Geispunni er lyft beint upp og á plantan þá að vera í holunni. Stigið er varlega meðfram plöntunni til að loka holunni alveg og koma rótum plöntunnar í gott samband við jarðveginn.
Áburðargjöf
Ef grafin er hola með skóflu er gott að setja lífrænan áburð (búfjáráburði) í holuna. Ef nýr áburður er notaður þarf að blanda honum saman við jarðveginn úr holunni. Ef notaður er búfjáráburður sem hefur legið í haug um tíma eða þurrt hrossatað má nota það óblandað og er þá holan sem gróðursett er í fyllt með áburðinum. Ef notaður er tilbúinn áburður (t.d. Blákorn) er gott að gefa hverri bakkaplöntu um eina matskeið af áburði. Áburðurinn er þá settur í 5-10 cm fjarlægð frá plöntunni. Ef mikill gróður er í kringum plöntuna getur verið gott að setja áburðinn í holu við plöntuna.