Undirbúningur gróðursetningar
Til að gróðursetning gangi vel og plönturnar vaxi upp er mikilvægt að vera með rétt áhöld, fara vel með plönturnar og velja góðan stað og tíma til að setja plönturnar niður.
Staður
Fyrst þarf að tryggja að ekki sé gróðursett þar sem ekki á að gróðursetja. Þegar búið er að velja heppilegt land, þarf að hugsa út í hvernig landið kemur til með að líta út þegar plönturnar stækka og verða stór tré, en trén eiga að falla eins vel að landslaginu og hægt er.
Meðferð plantna
Plöntur eru lifandi verur og eiga að meðhöndlast sem slíkar. Plönturnar eiga að vera með eðlilegan grænan lit á blöðunum, ræturnar eiga að vera heilar og óslitnar og fylla út í moldartappann í bökkunum, þannig að tappinn fylgi í heilu lagið þegar plantan er tekin úr bakkanum. Ef plöntur eru ekki settar niður um leið og þær koma þarf að geyma þær skugg- og skjólsælum stað, á sléttu undirlagi svo ekki lofti undir þá og raða bökkunum þétt saman. Vökva þarf plönturnar reglulega á meðan þær eru geymdar og gegnvæta þær fyrir gróðursetningu. Plöntubakka á ekki að henda til eða henda frá þér, því það veikir plönturnar.
Áhöld
Hægt er að gróðursetja með skóflu eða plöntustaf. Ef gróðursett er með skóflu ganga skóflur með oddlaga blaði yfirleitt betur en skóflur með þveru blaði. Bestu skóflurnar eru léttar en sterkar stunguskóflur. Til eru tvær gerðir af plöntustaf – hefðbundinn stafur með hólki og haka að neðan og svo svokölluð geispa. Ef gefinn er áburður er gott að hafa fötur til að flytja hann.
Tími
Best er að gróðursetja að vori um leið og frost er farið úr jörðu. Gróðursetning síðsumars reynist líka oft vel. Viðkvæmasti gróðursetningartíminn er um hásumarið, þegar plöntur eru í fullum vexti. Ekki ætti að gróðursetja þegar er þurrt, sólríkt og vindasamt.