Regnskógar
Loftslag:
Úrkoma:
Jarðvegur:
Gróður:
Hlýtt allt árið og stöðugur hiti, enginn árstíðamunur.
Mjög mikil.
Þunnur og næringarsnauður.
Fjölbreyttur – tré, runnar, blóm, grös og aðrar jurtir.
Dýralíf:
Gífurlega fjölbreytt – skordýr, spendýr, fuglar, skriðdýr og froskdýr.
Regnskógar eru fjölbreyttasta gróðurbelti jarðar. Þeir mynda belti um miðbaug, eru að mestu leyti í hitabeltinu og þar rignir mjög mikið. Hlýtt er árið um kring, hiti jafn og plöntur vaxa þess vegna allt árið.
Jarðvegur í regnskógum er næringarsnauður og þunnur en aðal næringin í skógunum liggur í gróðrinum sjálfum. Regnskógar einkennast af fjölskrúðugu gróður- og dýralífi en þar eru heimkynni um helmings allra jurta og dýra í heiminum. Þar finnast nær allar gerðir af gróðri – tré, runnar, blóm, sveppir, grös og aðrar jurtir og trén eru yfirleitt hávaxin og græn allt árið. Dæmi um algengar plöntur eru klifur- og vafningsjurtir, burknar, mosar, pálmatré og aldintré.
Dýralífið er líka mjög fjölbreytt en í regnskógum eru spendýr, fuglar, skriðdýr, froskdýr, skordýr og jafnvel fiskar þar sem eru ár eða vötn en skordýr eru lang algengustu dýrin.
Helstu skordýrin eru fiðrildi, moskító-flugur og maurar en meðal spendýra má nefna hlébarða, leðurblökur og apa og meðal fugla, páfagauka og kólibrífugla.

Yrkja | Námsgagnastofnun | Skógræktarfélag Íslands