Barrskógabelti
Loftslag:
Úrkoma:
Jarðvegur:
Gróður:
Langir, kaldir og þurrir vetur; stutt, vot og svöl sumur.
Lítil.
Þunnur og næringarsnauður.
Mest kuldaþolin barrtré, fléttur, skófir og mosi.
Dýralíf:
Frekar fáar tegundir spendýra, skordýra og fugla.
Barrtré eru einkennandi fyrir barrskógabeltið. Það er stærsta gróðurbeltið og tekur við af freðmýrunum á norðurhveli jarðar. Barrskógabeltið hefur stutt, vot og svöl sumur og langa, kalda og þurra vetur. Úrkoman er lítil og mest á sumrin. Jarðvegurinn er þunnur og næringarsnauður.
Af því að veturinn er kaldur og jarðvegur rýr eru plöntur í barrskógabeltinu harðgerðar. Algengasti gróðurinn eru ýmis kuldaþolin barrtré, eins og fura, þinur, greni og lerki. Fléttur, skófir og mosar eru líka algengur gróður.
Dýralíf í barrskógunum er aðallega fuglar, spendýr og skordýr. Meðal spendýra má nefna hjartardýr, birni, gaupur, refi og ýmis nagdýr en helstu fuglar eru ýmsir spörfuglar, haukar, spætur og krákur.
Á sumrin er mikið af skordýrum í skóginum og koma þá ýmsir fuglar til að verpa og ala upp unga en fara svo aftur á haustin.
Yrkja | Námsgagnastofnun | Skógræktarfélag Íslands