Lauftré

Lauftré hafa flöt og breið lauf. Flest lauftré vaxa bæði upp og til hliðar og þess vegna er króna þeirra oft kúlulaga. Laufin eru breið til að sólin geti skinið vel á þau. Nær öll lauftré fella laufið á haustin og eru því lauflaus á veturna.

Flest lauftré blómstra á vorin en hjá mörgum þeirra eru blómin mjög lítil. Sum lauftré hafa þyrpingu örsmárra blóma sem kallast rekill. Mörg lauftré mynda líka ávexti á haustin.

Á Íslandi eru rifsberjatré og sólberjatré, sem vaxa víða í görðum, dæmi um ávaxtatré. Ennfremur reynitré, en ber reynitrjáa eru fæða fugla.

Það eru til margar gerðir af lauftrjám. Birki, reynir, gulvíðir og loðvíðir eru upprunalegar tegundir hér á Íslandi, en ösp og elri eru innflutt, en mjög algeng.